Ákvörðun - mál nr. 20/2025
- Ritstjóri

- Aug 25, 2025
- 1 min read

Kæran málsins laut að útboði Fjársýslu ríkisins fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins auðkennt auðkennt „Multidisciplinary teams for enhancement of digital services“. Kæra málsins barst á biðtíma samningsgerðar og hafði í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar.
Ágreiningur málsins varðaði m.a. það hvort varnaraðili hafi brotið gegn lögum nr. 120/2016 og
10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að byggja endanlega stigagjöf bjóðenda varðandi þekkingu og reynslu á sjálfsmati bjóðenda án þess að staðreyna að veittar upplýsingar hafi verið réttar.
Við meðferð málsins og skoðun kærunefndar útboðsmála á tilboðsgögnum bjóðenda kom í ljós að í tilviki nánast allra bjóðenda mátti færa fram röksemdir fyrir því að stigagjöf þeirra fyrir reynslu og þekkingu hafi verið of há með hliðsjón af framlögðum upplýsingum og valforsendum útboðsgagna.
Taldi kærunefnd útboðsmála að framangreinda misbresti mætti hugsanlega rekja til ófullnægjandi yfirferðar varnaraðila á upplýsingum í tilboðsgögnum bjóðenda með hliðsjón af valforsendum útboðsgagna. Þannig virðist sem varnaraðili hafi útbúið skjal í tengslum við yfirferð yfir ferilskrár og upplýsingar frá bjóðendum. Í því skjali var í fyrsta flipa að finna „leiðbeiningar“ þar sem sagði: „Fyrst verður farið yfir skalkröfur og treyst á gæðaeinkunn birgja sem þeir gáfu sjálfum sér.“
Samkvæmt framangreindu taldi kærunefnd útboðsmála að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að ákvörðun varnaraðila um val tilboða hafi verið brotið gegn lögum nr. 120/2016 og að brotið geti haft í för með sér ógildingu á ákvörðuninni. Með vísan til þess hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfum varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar.
Comments