Úrskurður - mál nr. 27/2025
- Ritstjóri

- 1 day ago
- 2 min read

Kæran málsins laut að útboði Framkvæmdasýslunar - Ríkiseigna, fyrir hönd Vesturbyggðar vegna ofanflóðavarna í Bíldudal, þar sem Borgarverk krafðist þess að felldar yrðu úr gildi ákvarðanir varnaraðila um að hafna tilboði kæranda og velja tilboð Suðurverks hf. í útboðinu.
Ágreiningur aðila laut einkum að því hvort varnaraðilum hafi verið heimilt að hafna tilboði kæranda sem óaðgengilegu á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki uppfyllt kröfur um fjárhagslegt hæfi, nánar tiltekið ákvæði þess efnis að „veltufjárhlutfall bjóðanda skyldi vera 1 eða hærra“.
Í umræddu ákvæði var kveðið á um lágmarkskröfur til fjárhagsstöðu bjóðanda. Í ákvæðinu var að finna töflu þar sem finna mátti fjórar tilgreindar kröfur í vinstri dálki og í hægri dálki var tiltekið hvaða gögn bjóðendur áttu að leggja fram til staðfestingar þess að krafa væri uppfyllt. Í ákvæðinu var gerð krafa um að meðaltalsársvelta „síðustu tveggja ára“ skyldi að lágmarki nema 800 milljónum króna án virðisaukaskatts. Þessu til staðfestingar kom fram í hægri dálki að horft yrði til ársreiknings 2023, sem varnaraðila FSRE sæi sjálft um að sækja á vef RSK.is, en erlendum aðilum var gert að leggja fram ársreikning með tilboði. Í öðru lagi var gerð krafa um að eigið fé bjóðanda skyldi „árið 2023“ vera jákvætt um sem nam 10% af efnahagsreikningi og í þriðja lagi skyldi veltufjárhlutfall bjóðanda vera 1 eða hærra. Þegar kom að kröfu er varðaði veltufjárhlutfall var hins vegar ekki tiltekið hvaða gögn bjóðendur áttu að leggja fram til staðfestingar því að krafa varnaraðila væri uppfyllt.
Þrátt fyrir það horfði varnaraðili til ársreiknings 2023 þegar kom að því að staðfesta það hvort veltuhlutfall bjóðenda væri 1 eða hærra. Veltuhlutfall kæranda var undir 1 í ársreikningi vegna ársins 2023 en yfir 1 í ársreikningi vegna 2024.
Kærunefnd útboðsmála taldi að svo óljóst hefði verið um tímamark og útreikning viðmiðs útboðsins um veltufjárhlutfall að varhugavert væri að leggja til grundvallar að kærandi hefði ekki fullnægt þessu viðmiði og líta yrði svo að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda hefði verið ólögmæt.
Þá taldi nefndin sömuleiðis að verulegir annmarkar væru á tilboði því sem varnaraðili hafði valið. Í tilboðinu hafði vantað allar upplýsingar um tæknilegan ráðgjafa, öryggisráðgjafa og ráðgjafa verkefnaáætlunar og líta yrði svo á að tilboð það sem varnaraðili valdi hefði verið ógilt.
Ákvörðun varnaraðila, Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna og Vesturbyggðar, um að hafna tilboði kæranda, Borgarverks ehf., í útboðinu var því felld úr gildi og ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Suðurverks hf. í útboðinu var auk þess felld úr gildi.
Comments