top of page

Ólögmætt samráð

  • Writer: Ritstjóri
    Ritstjóri
  • Dec 10, 2025
  • 2 min read

Danska Samkeppnis- og neytendastofnunin (Konkurrence- og Forbrugerstyrelsen) hefur tekið saman lista yfir 12 vísbendingar sem allar geta bent til þess að um sé að ræða ólögmætt samráð milli fyrirtækja í tengslum við framkvæmd opinberra innkaupa.

 

Slíkt samráð getur komið fram með ýmsum hætti við undirbúning, framsetningu og mat tilboða. Stundum birtist það í því hvernig tilboð eru skrifuð og uppbyggð, en í öðrum tilvikum í verðlagningu eða í mynstrum sem koma fram þvert á fleiri en eitt útboð. Hér á eftir eru rakin viðvörunarmerkin samkvæmt listanum:


Vísbendingar í tilboðsgögnum bjóðenda 

  • Afritun: Framlögð tilboð eru mjög lík hvert öðru, til dæmis að þau byggist á sams konar útreikningum, hafi sama tilboðsverð, sömu skjöl eða sambærilegt orðalag í tilboðsgögnum, jafnvel með sömu stafsetningarvillum.

  • Trúnaðarupplýsingar: Upplýsingar í tilboði gefa til kynna að bjóðandi hafi vitneskju um trúnaðarupplýsingar úr öðrum tilboðum.

  • Sameiginleg einkenni í lýsigögnum: Lýsigögn (e. metadata) tilboðsgagna bera sameiginleg einkenni og/eða óeðlileg frávik, sem geta bent til þess að sami aðili hafi útbúið tilboðsgögn fyrir fleiri en einn bjóðanda eða að bjóðandi hafi stuðst við tilboðsgögn annars bjóðanda.


Vísbendingar í tilboðsverðum 

  • Óeðlilega há tilboð: Tilboð eru mun hærri en búast hefði mátt við miðað við eðlilegar markaðsaðstæður.

  • Einsleit verðhegðun: Sambærilegar hækkanir á tilboðsverðum hjá bjóðendum, án þess að málefnalegar eða markaðstengdar skýringar liggi fyrir.

  • Óeðlilega lág tilboð: Tilboð frá nýjum bjóðendum eru óeðlilega lág miðað við eðli verks, vöru eða þjónustu.


Hegðunarmynstur í tilboðsgerð 

  • Bjóðendur skiptast á að leggja fram lægsta tilboðið: Bjóðendur skiptast kerfisbundið á að leggja fram lægsta tilboðið í útboðum.

  • Val á undirverktökum: Fyrirtæki sem valið er í opinberu innkaupaferli nýtir ætíð sama undirverktaka sem jafnframt er samkeppnisaðili annarra bjóðenda, eða undirverktökum er kerfisbundið skipt á milli fyrirtækja.

  • Beiðni um skiptingu innkaupa: Fyrirtæki eða bjóðendur óska eftir því að innkaup séu útfærð þannig að þeim sé skipt milli nokkurra seljenda innan sama samnings, í stað þess að einn seljandi verði valinn, þegar slík útfærsla er ekki réttlætanleg með tilliti til umfangs eða markaðsaðstæðna.

  • Sigurvegara- og taparamynstur: Sömu bjóðendur vinna ár eftir ár sama hlutfall útboða, eða virðast vinna útboð á tilteknum sviðum eða á afmörkuðum landsvæðum.

  • Mynstur í tilboðsfjárhæðum: Tilteknir bjóðendur leggja ávallt fram hæstu eða lægstu tilboðin í tilteknum verkefnum eða á ákveðnum landsvæðum.

  • Lítil þátttaka: Sum fyrirtæki bjóða ekki í verkefni, þrátt fyrir að þau geri það að jafnaði og hafi bæði getu og burði til þess, án þess að skýrar og málefnalegar ástæður liggi fyrir.

Heimild:


Comments


bottom of page